Jarðhitaleit í austanverðri Afríku

Sjá upplýsingar um verkefnið í verkefnagrunni

Úr skýrslu utanríkisráðherra 2017:

Íslensk stjórnvöld standa fyrir umfangsmiklu samstarfi um jarðhitarannsóknir í Austur-Afríku. Jarðhitaverkefni Íslands og Norræna þróunarsjóðsins (Nordic Development Fund, NDF) þar er liður í samstarfi Íslands og Alþjóðabankans um aukna jarðhitanýtingu í Austur-Afríku. Verkefnið miðar að því að aðstoða lönd við frumjarðhitarannsóknir til að fá úr því skorið hvort nýtanlegan jarðhita sé að finna. Fáist jákvæðar niðurstöður taka við tilraunaboranir með þátttöku Alþjóðabankans, Afríkusambandsins (African Union, AU) og fleiri aðila, til að aðstoða lönd við að taka á, og lágmarka þá áhættu sem felst í tilraunaborunum. Reynslan bendir til þess að veruleg þörf sé fyrir stuðning á þessu stigi jarðhitaþróunar. Stefnt er að frekara samstarfi við Alþjóðabankann um beina aðkomu íslenskra sérfræðinga í jarðhitaverkefnum bankans, bæði úr einkafyrirtækjum og opinberum stofnunum.

Mikilvægum áföngum var náð á sl. ári í verkefnum í Eþíópíu og Kenía en þar var lokið við jarðhitaleit á þremur svæðum. Á tveimur svæðum í Eþíópíu taka við verkefni Alþjóðabankans og tilraunaboranir. Á rannsóknarsvæði í Kenía eru niðurstöður jákvæðar. Þar í landi hefur Ísland aðstoðað jarðhitafyrirtæki landsins (GCD) við að fá rannsóknarstofu sína vottaða. Í tengslum við það hafa kenískir sérfræðingar komið til Íslands og fengið þjálfun á rannsóknarstofum ÍSOR og MATÍS.

Í Djíbútí var veitt aðstoð og þjálfun við jarðhitaleit, auk þess sem haldið var námskeið um jarðhitaboranir, en Djíbútí mun á næstunni hefja tilraunaboranir. Viðræður áttu sér stað við Djibútí vegna aðstoðar við að ljúka jarðhitaleit á öðru svæði og mun sú vinna fara af stað 2017. Þá hófst jarðhitaleit á tveimur svæðum í Tansaníu á sl. ári, auk þess sem lokið var við viðbótarrannsóknir á þriðja svæðinu í samvinnu við Umhverfisstofnun SÞ (UN Environment). Í Malaví hófst jarðhitaleit sem er fjármögnuð af og í samstarfi við Alþjóðabankann en Ísland leggur til tækniaðstoð við umsjón og eftirlit verkefnisins.

Rannsóknir síðustu ára sýna að mun lægri hita er að finna í vestari hluta sigdalsins heldur en í austari hlutanum og er hann varla virkjanlegur til raforku. Því er nú frekar horft til möguleika landa þar til að nýta jarðhita með beinum hætti, s.s. við þurrkun matvæla og mögulega orkuframleiðslu í litlum mæli með tvívökvavirkjunum. Ísland fjármagnaði greiningu á möguleikum og hagkvæmni tvívökvavirkjana.