Mósambík

Almennt

Mósambík er í suðausturhluta Afríku með landamæri að Tansaníu í norðri, Malaví og Sambíu í norðvestri, Simbabve í vestri og Suður-Afríku og Svasílandi í suðri. Landið er um 800.000 km² að stærð og strandlengjan, sem er 2.400 km löng, liggur að Indlandshafi. Um 85% íbúa Mósambíkur byggja afkomu sína á akuryrkju, svo sem kassavarót, maís og hrísgrjónum. Meðal helstu útflutningafurða eru ál, jarðgas og skelfiskur en Mósambík hefur yfir verðmætum humar- og rækjumiðum að ráða.

Samstarfsáætlun við Mósambík er í vinnslu.

Úr skýrslu utanríkisráðherra 2017

Í Mósambík vinnur sendiráðið í samstarfi við Noreg og stjórnvöld í Mósambík að uppbyggingu sjávarútvegs og fiskeldis. Meginmarkmiðið er að auka fæðuöryggi og bæta lífskjör með sjálfbærri nýtingu auðlinda. Helstu þættir samstarfsins eru: aukin veiði með smábátum og með fiskeldi, bætt stjórnun smábátaveiða, aukin geta stjórnvalda til að skipuleggja og fylgjast með starfsemi fiskigeirans, öflugri landhelgisgæsla og að lokum stuðningur við ýmis þverlæg málefni í fiskisamfélögum.

Stærsti einstaki verkþátturinn er uppbygging fiskeldis- og rannsóknaseturs. Framkvæmdum við setrið er nú lokið og starfsemi þess hafin. Samstarfinu lýkur á yfirstandandi ári og er flestum verkþáttum lokið eða þeir langt komnir.

Þá er stuðningi beint að uppbyggingu grunnþjónustu við skóla í dreifbýli í Zambézíu-fylki á sviði vatns- og salernismála. Samstarf er við UNICEF um fjögurra ára vatns- og salernisverkefni. Ætlunin er að koma á laggirnar viðunandi salernisaðstöðu fyrir íbúa í sex héruðum fylkisins, bæta aðgengi heimila að heilnæmu vatni og sjá til þess að skólar fái hreint vatn og salernisaðstöðu. Framkvæmdir eru hafnar í öllum héruðunum sex þar sem borað hefur verið fyrir vatnsbólum, byggð salerni og unnið að því að bæta getu stjórnsýslustofnana til að annast þjónustuna. Verkefnið er unnið með opinberum stofnunum í vatns-, salernis- og hreinlætismálum. Til stendur að framlengja samstarfssamningi og halda verkefninu áfram út árið 2020.

Á síðastliðnu ári hófst undirbúningur að samstarfi við UN Women og félagsmálaráðuneytið í Mósambík um konur, frið og öryggi. Verkefnisskjal er tilbúið og samstarfssamningur undirritaður. Verkefnið verður framkvæmt í fjórum fylkjum landsins, Manica, Sofala, Tete og Zambézíu. 

Lykiltölur:

 • Mannfjöldi: 24,5 milljónir (Sameinuðu þjóðirnar, 2012)
 • Höfuðborg: Maputo
 • Stærð landsins: 812,379 ferkílómetrar
 • Helstu tungumál: Portúgalska (opinbert mál), Makua-Lomwe, Tsonga, Shona, Swahili
 • Helstu trúarbrögð: Þjóðtrú, Múhameðstrú, Kristni
 • Lífslíkur: 50 ár (karlar), 52 ár (konur) (SÞ)
 • Læsi (15 ára og eldri): 56,1% (SÞ)
 • HDI: 185 (SÞ, 2012)
 • Gjaldmiðill: 1 metical = 100 centavos
 • Helstu útflutningsafurðir: Ál, kol og málmar.
 • VLF á mann (PPP): 460 Bandaríkjadalir (Alþjóðabankinn, 2011)
 • Landslén: .mz
 • Landsnúmer: +258


Ýmsar upplýsingar um Mósambík - tenglar:


Fréttatenglar: