Malaví

MalaviskolamaltidirAlmennt

Malaví er í suðausturhluta Afríku og á landamæri að Mósambík, Sambíu og Tansaníu.  Helsta einkenni þess er Malavívatn sem nær yfir fimmtung landsins, en samtals er flatarmál Malaví  um 120 þúsund ferkílómetrar. Landið er eitt það þéttbýlasta í Afríku með um 18 milljónir íbúa og jafnframt meðal fátækustu landa í heimi. Fjölbreytt náttúra einkennir landið, með hásléttum og gróðursælu láglendi. Malaví er frjósamt og mikill meirihluti landsmanna lifir af landbúnaði.  Tóbaks,  te- og bómullarrækt til útflutnings, en maís, kassavarót og hrísgrjón eru helstu matvælategundirnar sem ræktaðar eru til neyslu innanlands.

Samstarfsáætlun við Malaví 2012-2016       

Í Mangochi-héraði í Malaví vinnur sendiráðið með héraðsyfirvöldum að framkvæmd sameiginlegrar verkefnastoðar sem héraðsyfirvöld bera ábyrgð á og framkvæma og fá þau stuðning við að byggja þjónustuna upp. Hlutverk sendiráðsins er að veita tæknilega aðstoð við stefnumótun og áætlunargerð í framkvæmdum verkþátta. Það hefur virkt eftirlit með fjármálastjórn og gerð verkáætlana og tekur þátt í vöktun og árangursmati.

Þann 8. nóvember 2017 var skrifað undir nýjan samstarfssamning við stjórnvöld í Malaví um fasa tvö í héraðsþróunarverkefninu í Mangochi, sem nær til áranna 2017-2021. Í megindráttum er samstarfið á sömu sviðum og undanfarin fimm ár, þ.e. í lýðheilsu, menntun, vatns- og salernismálum auk stuðnings við stjórnsýsluna sjálfa heima í héraði.

Á verktímabilinu verður áfram lögð áhersla á að efla þjónustu við mæður og börn. Reynt verður að tryggja góða þjónustu í þeim heilbrigðisstofnunum sem byggðar hafa verið. Héraðið mun ráða fleira fagfólk til starfa við fæðingardeildir og heilsuskýli sem reist hafa verið og byggð verða starfsmannahús víða í dreifbýli til að hýsa heilbrigðisstarfsfólk.

Þessar áherslur eru eðlilegt framhald af þeirri gríðarlegu uppbyggingu í innviðum sem samstarfið í lýðheilsu hefur gengið út á undanfarin ár. Bryddað verður upp á ýmsum nýjungum til að styðja enn frekar við markmiðin. Þannig er fyrirhugað að gera tilraun með að útbýta næringarviðbót fyrir 6-18 mánaða börn í öllum heilsugæslustöðvum og styrkja fræðslu um mikilvægi þess að draga úr fólksfjölgun og kynna aðferðir í því sambandi.  Ennfremur verður lögð aukin áhersla á að efla vitund og þekkingu fólks í dreifbýlinu á grundvallaratriðum í lýðheilsu.

Í vatns- og salernismálum er í verkefnaskjalinu miðað við 680 vatnsból, þar af 500 ný, í þremur sveitarfélögum alls. Það er talið raunhæft, meðal annars vegna þeirrar reynslu sem hefur byggst upp hjá vatnsskrifstofunni undanfarin ár. Á þessu ári var ákveðið að gera átak í að ljúka að mestu salernisþættinum í Chimwala hreppi og jafnframt að flytja forræði salernis- og hreinlætismála frá vatnsskrifstofunni yfir til heilbrigðisskrifstofunnar, en það er sama fyrirkomulag og á landsvísu.  

Í menntahluta héraðsþróunarverkefnisins þar sem höfuðáhersla verður lögð á yngstu börnin í þeim tólf skólum sem unnið hefur verið með síðustu fimm árin, börn í 1. til 3. bekk. Ráðgert er að byggðar verði skólastofur fyrir þessa árganga, reynt að tryggja að hvert og eitt barn fái í hendur nýja kennslubók í öllum greinum. Reynt verður að tryggja að þau læri að lesa, skrifa og fái undirstöðumenntun í reikningi á þessum fyrstu árum.  Ennfremar verður unnið að því að fjölga aðstoðarfólki í yngstu bekkjunum, skipta þeim í minni bekki og mögulega taka upp tvísetningu í skólunum. Ein nýjung til viðbótar er að gera tilraun með leikskóladeildir við tvo skóla, til að undirbúa börnin og til að bæta þjónustu í samfélögunum.  

Undanfarið hefur verið mikil umræða um barnahjónabönd í Malaví. Í verkefnistímanum er gert ráð fyrir því að styðja viðleitni til að koma í veg fyrir barnahjónabönd. Það verður m.a. gert í gegnum skólana tólf sem unnið er með, en einnig með stuðningi við héraðsyfirvöld, við að upplýsa höfðingja, mæðrahópa og aðra sem geta haft áhrif til góðs.

Meðal annarra nýmæla í samstarfinu eru aðgerðir til efnahagslegarar valdeflingar kvenna og ungmenna. Undirbúningur þessa þáttar er skemmra á veg kominn en annað en í ársbyrjun 2018 hefst greiningarvinna. Út frá niðurstöðum þeirrar vinnu verður unnin aðgerðaáætlun.

Lykiltölur:

 • Mannfjöldi: 17,8 milljónir (UNDP, 2016)
 • Höfuðborg: Lilongwe
 • Stærð landsins: 118,484 ferkílómetrar
 • Helstu tungumál: Chichewa, Enska (bæði opinber)
 • Helstu trúarbrögð: Kristni, Islam
 • Lífslíkur: 60 ár (karlar), 62 ár (konur) (SÞ)
 • HDI: 170/188(UNDP 2016)
 • Gjaldmiðill: 1 Malaví kwacha (MWK)
 • Helstu útflutningsafurðir: Tóbak, te, bómull
 • VLF á mann (Atlas aðferð): 320 Bandaríkjadalir (Alþjóðabankinn, 2016)
 • Landslén: .mw
 • Landsnúmer: +265

Ýmsar upplýsingar um Malaví - tenglar:

Fréttatenglar: