Neyðar- og mannúðaraðstoð

Neyðar- og mannúðaraðstoð Íslands miðar að því að bjarga mannslífum og draga úr þjáningu þar sem neyðarástand hefur skapast. Líkt og verkefni sem stuðla að langvarandi uppbyggingu og þróun er mikilvægt að neyðar- og mannúðaraðstoð sé veitt með ábyrgum og samhæfðum aðgerðum þar sem skilvirkni er höfð að leiðarljósi.

Aðstoð Íslands á þessum vettvangi tekur ávallt mið af þeirri þörf sem skapast hverju sinni. Aðstoðin rennur annars vegar um hendur stofnana og sjóða SÞ og hins vegar til borgarasamtaka. Þrír aðilar gegna stærstu hlutverki á þessum vettvangi innan SÞ, Matvælaáætlun SÞ (WFP) sem starfar á öllum helstu neyðarsvæðum í heimi, Neyðarsjóður SÞ (CERF) sem gerir samtökunum kleift að bregðast við þegar skyndilegar hamfarir dynja á og Samræmingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) sem samræmir aðgerðir.

Borgarasamtök gegna einnig lykilhlutverki á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar. Utanríkisráðuneytið tekur á móti umsóknum um styrki til borgarasamtaka tvisvar á ári skv. sérstökum verklagsreglum. Sjá nánar hér.

MannudgrafÞörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri en í dag, enda hefur aldrei verið jafnmikill fjöldi fólks í heiminum á flótta, flestir vegna langvarandi stríðsátaka, ofbeldis og ofsókna. Um síðustu áramót var áætlað að 65 milljónir manna væru á flótta í heiminum. Þegar allir þeir eru taldir, sem þurfa á alþjóðlegri mannúðaraðstoð að halda, þ.m.t. þeir sem búa á átakasvæðum eða svæðum sem hafa tekið við miklum fjölda flóttamanna, er talið að rúmlega 30 milljónir manna bætist við þessa tölu. Þessi mikla fjölgun flóttafólks síðustu ár hefur m.a. átt þátt í að auka straum þess til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Þannig hafa hundruð þúsunda manna lagt á sig hættulegt ferðalag í leit að betra lífi. Eina leiðin til að stöðva þennan straum flóttafólks, sem langflest er frá óstöðugum svæðum í Mið-Austurlöndum, Afríku og Mið-Asíu, er að binda enda á drifkraftana sem knýr fólkið áfram, hvort sem það er stríð, hungursneyð eða almenn fátækt. Heimsmarkmiðin byggja á þeirri forsendu að friður og sjálfbær þróun séu órjúfanlega tengd, enda er 16. markmiðið helgað friðarmálum og réttarríkinu.

Leiðtogafundur um mannúðarmál (World Humanitarian Summit) í Istanbúl í maí 2016 snerist um þörfina fyrir breytta nálgun að framkvæmd mannúðaraðstoðar. Áhersla er lögð á tengslin milli mannúðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingar; að auka framlög og fyrirsjáanleika framlaga til mannúðarstofnana; að auka árangur og áreiðanleika veittrar aðstoðar til nauðstaddra, þ.m.t. aukin framlög til sameiginlegra neyðarsjóða og minni eyrnamerkingu framlaga. Ísland tók undir allar kjarnaskuldbindingar fundarins og stefnt er að því að allt starf á sviði mannúðarmála taki mið af alþjóðlegu samkomulagi um góða starfshætti í mannúðaraðstoð og skuldbindingum Íslands frá fundinum.

Ísland hefur á síðustu misserum lagt fram umtalsvert fé til mannúðaraðstoðar, einkanlega vegna flóttafólks frá Sýrlandi. Heildarframlög til mannúðaraðstoðar námu um 532 milljónum króna á árinu 2017, af því voru 220 milljónir framlög til alþjóðastofnana. Auk þess runnu 158,5 milljónir sem styrkir til mannúðarverkefna íslenskra borgarasamtaka (þar af 71,5 milljónir til verkefna tengdum sýrlensku flóttafólki. Líkt og fyrri ár studdi Ísland við palestínsk borgarasamtök sem veita konum lagalega ráðgjöf og stuðning (e. Women's Centre for Legal Aid and Counselling, WCLAC). 

Á leiðtogafundi um málefni Sýrlands í apríl 2017 tilkynnti utanríkisráðherra að á árunum 2017-2020 geri íslensk stjórnvöld ráð fyrir að verja árlega að lágmarki 200 milljónum króna til mannúðarverkefna stofnana SÞ og borgarasamtaka í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess.