8. Góð atvinna og hagvöxtur

Markmið: Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla

Undirmarkmið:

8.1      
Viðhaldið verði hagvexti á hvern einstakling í samræmi við aðstæður í hverju landi og sérstaklega að minnsta kosti 7% vexti vergrar landsframleiðslu á ári í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin.

8.2      
Aukinni framleiðni í atvinnulífinu verði náð með aukinni fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun, meðal annars með því að beina athygli að vinnuaflsfrekum geirum sem hafa mikinn virðisauka.

8.3      
Unnið verði að framgangi þróunarmiðaðra stefnumála sem styðja við afkastamikla framleiðslustarfsemi, sköpun mannsæmandi starfa, frumkvöðlastarfsemi, sköpunarmátt og nýsköpun og hvatt verði til myndunar og vaxtar örfyrirtækja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, meðal annars aðgangi að fjármálaþjónustu.

8.4      
Fram til ársins 2030 verði nýtni auðlinda í neyslu og framleiðslu bætt stöðugt og leitast við að frátengja hagvöxt frá hnignun umhverfisins í samræmi við 10 ára rammaáætlunina um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, þar sem iðnríkin ganga á undan.

8.5      
Eigi síðar en árið 2030 verði full og gagnleg atvinna og mannsæmandi störf að veruleika fyrir allar konur og karla, meðal annars fyrir ungt fólk og fatlað fólk, og sömu laun verði greidd fyrir jafnverðmæt störf.

8.6      
Eigi síðar en árið 2020 hafi hlutfall ungmenna, sem eru atvinnulaus eða stunda ekki nám eða þjálfun, lækkað verulega.

8.7      
Gerðar verði tafarlausar og árangursríkar ráðstafanir til þess að útrýma nauðungarvinnu, endir bundinn á nútímaþrælahald og mansal og tryggt verði bann við og afnám barnaþrælkunar, meðal annars nýliðunar og notkunar barnahermanna, og eigi síðar en árið 2025 verði bundinn endir á nauðungarvinnu barna í öllum myndum.

8.8      
Réttindi á vinnumarkaði verði vernduð og stuðlað að öruggu og tryggu vinnuumhverfi fyrir allt launafólk, meðal annars farandlaunþega, einkum konur sem eru á faraldsfæti, og þá sem hafa ótrygga atvinnu.

8.9      
Eigi síðar en árið 2030 verði úthugsuð stefnumál og þeim hrundið í framkvæmd til þess að stuðla megi að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur.

8.10    
Geta fjármálastofnana innanlands verði efld til þess að ýta undir og bæta aðgang að banka-, trygginga- og fjármálaþjónustu fyrir alla. 

8.a      
Stuðningur við aðstoð til eflingar viðskiptum (e. Aid for Trade) verði aukinn í þágu þróunarlanda, einkum þeirra sem eru skemmst á veg komin, meðal annars á grundvelli eflds samþætts ramma um viðskiptatengda tækniaðstoð við þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun (e. Enhanced Integrated Framework for Trade-Related Technical Assistance to Least Developed Countries).

8.b      
Eigi síðar en árið 2020 verði lokið við að þróa og hrinda í framkvæmd heildarstefnu um atvinnumál ungmenna og atvinnusáttmáli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar komi til framkvæmda.