7. Sjálfbær orka

Markmið: Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði

Undirmarkmið:

7.1      
Eigi síðar en árið 2030 verði almennt aðgengi tryggt að nútímalegri og áreiðanlegri orkuþjónustu á viðráðanlegu verði.

7.2      
Eigi síðar en árið 2030 verði hlutur endurnýjanlegrar orku í orkusamsetningu heimsins aukinn verulega.

7.3      
Eigi síðar en árið 2030 hafi hraði úrbóta í orkunýtni verið tvöfaldaður.

7.a      
Eigi síðar en árið 2030 verði alþjóðleg samvinna aukin í því skyni að auðvelda aðgengi að rannsóknum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku, meðal annars endurnýjanlegrar orku, orkunýtni og þróaðrar og hreinni tækni á sviði jarðefnaeldsneytis, og ýtt undir fjárfestingu í orkugrunnvirkjum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku.

7.b      
Eigi síðar en árið 2030 verði aukið við grunnvirki og tækni uppfærð í því skyni að veita öllum í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og þróunarlöndum sem eru smáeyjaríki og landluktum þróunarlöndum, nútímalega og sjálfbæra orkuþjónustu í samræmi við stuðningsáætlanir hvers og eins.