4. Menntun fyrir alla

Markmið: Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi

Undirmarkmið:

4.1      
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki á jafnréttisgrundvelli gæðamenntun á grunnskólastigi  án endurgjalds sem leiðir til góðs námsárangurs miðað við stöðu hvers og eins.

4.2      
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost frá barnæsku að þroskast, fá umönnun og leikskólamenntun þannig að þau verði tilbúin fyrir grunnskólanám. 

4.3      
Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur á viðráðanlegu verði að góðri tækni-, starfs- og framhaldsmenntun, þar á meðal á háskólastigi.

4.4      
Eigi síðar en árið 2030 hafi umtalsvert fjölgað ungmennum og fullorðnum sem hafa færni á viðeigandi sviðum, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi.

4.5      
Eigi síðar en árið 2030 verði kynjamismunun afnumin í menntun og fólki í viðkvæmri stöðu  tryggður jafn aðgangur að menntun og starfsþjálfun á öllum stigum, þar á meðal fötluðu fólki, frumbyggjum og börnum sem búa við erfiðar aðstæður.

4.6      
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og verulegur hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri, ritun og talnalæsi.

4.7      
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntun  til sjálfbærrar þróunar, sjálfbærum lífsstíl, mannréttindum, kynjajafnrétti, eflingu menningar sem byggist á friðsamlegum samskiptum, heimsborgaravitund, viðurkenningu menningarlegrar fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

4.a      
Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar sem miðast við börn, fatlaða og mismunandi kyn og sjá öllum fyrir öruggu, friðsamlegu og árangursríku námsumhverfi án aðgreiningar.

4.b      
Eigi síðar en árið 2020 verði aukinn á heimsvísu fjöldi námsstyrkja, sem stendur þróunarlöndum til boða, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin, sem eru þróunarlönd sem eru smáeyjaríki og Afríkuríkjum, það er námsstyrkja sem gera fólki kleift að innrita sig í æðra nám í iðnríkjum og öðrum þróunarríkjum, meðal annars í starfsnám og upplýsinga- og fjarskiptatækni, tækninám, verkfræði og raunvísindi.

4.c      
Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.