3. Heilsa og vellíðan

Markmið: Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar

Undirmarkmið:

3.1      
Eigi síðar en árið 2030 verði dánarhlutfall mæðra á heimsvísu komið niður fyrir 70 af hverjum 100.000 fæðingum lifandi barna.

3.2      
Eigi síðar en árið 2030 verði bundinn endir á dauða nýbura og barna undir 5 ára aldri sem hægt er að koma í veg fyrir og stefni öll lönd að því að lækka dánartíðni nýbura að minnsta kosti niður í 12 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna og dánartíðni barna undir 5 ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna.

3.3      
Eigi síðar en árið 2030 verði endir bundinn á farsóttirnar alnæmi, berkla, malaríu og vanrækta hitabeltissjúkdóma og barist verði gegn lifrarbólgu, vatnsbornum sjúkdómum og öðrum smitsjúkdómum.

3.4      
Eigi síðar en árið 2030 verði ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað verði að geðheilbrigði og vellíðan.

3.5      
Forvarnir og meðferð vegna vímuefnamisnotkunar, meðal annars misnotkunar fíkniefna og skaðlegrar notkunar áfengis, verði efldar.

3.6      
Eigi síðar en árið 2020 verði fjöldi dauðsfalla og meiðsla vegna umferðarslysa lækkaður um helming á heimsvísu.

3.7      
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggður almennur aðgangur að heilsugæsluþjónustu á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis, meðal annars vegna fjölskylduáætlana, upplýsingagjafar og fræðslu, og tryggt verði að frjósemisheilbrigði verði fellt inn í innlent skipulag og áætlanir.

3.8      
Komið verði á almennum heilsutryggingum, meðal annars vernd gegn fjárhagslegri áhættu, aðgengi að nauðsynlegri  gæðaheilsugæsluþjónustu og aðgengi að öruggum, skilvirkum, góðum og nauðsynlegum lyfjum og bóluefni á viðráðanlegu verði fyrir alla.

3.9      
Eigi síðar en árið 2030 verði fækkað umtalsvert dauðsföllum og veikindum af völdum hættulegra efna og loft-, vatns- og jarðvegsmengunar og -smitunar.

3.a      
Efld verði framkvæmd rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir í öllum löndum, eftir því sem við á. 

3.b      
Stutt verði við rannsóknir og þróun bóluefna og lyfja gegn smitsjúkdómum og smitvana sjúkdómum sem hafa einkum áhrif í þróunarlöndum, aðgengi verði veitt að nauðsynlegum lyfjum og bóluefnum á viðráðanlegu verði samkvæmt Dóha-yfirlýsingunni um TRIPS-samninginn og lýðheilsu sem staðfestir rétt þróunarlanda til þess að nýta sér til fulls ákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum sem fjalla um sveigjanleika í því skyni að                     vernda lýðheilsu og, einkum, að öllum verði veitt aðgengi að lyfjum.

3.c      
Fjármagn til heilbrigðismála verði aukið verulega, einnig nýliðun, þróun, þjálfun og viðhald heilbrigðisstarfsfólks í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin í þróun og í þróunarríkjum sem eru lítil eyríki. 

3.d      
Geta allra landa, einkum þróunarlanda, verði efld til að senda snemma út viðvaranir, draga úr áhættu og hafa stjórn á innlendri og hnattrænni heilbrigðisáhættu.