2. Ekkert hungur

Markmið: Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði

Undirmarkmið:

2.1
Eigi síðar en árið 2030 verði hungri útrýmt og aðgengi allra manna, einkum fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu, meðal annars ungbarna, tryggt að öruggri, næringarríkri og nægri fæðu allt árið um kring.

2.2
Eigi síðar en árið 2030 verði vannæringu í hvaða mynd sem er útrýmt, þar á meðal verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stöðva kyrking í vexti og uppdráttarsýki barna undir 5 ára aldri, og hugað verði að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra.

2.3
Eigi síðar en árið 2030 verði framleiðni og tekjur lítilla matvælaframleiðenda tvöfölduð, einkum kvenna, frumbyggja, fjölskyldubýla, hirðingja og fiskimanna, meðal annars með öruggum og jöfnum aðgangi að landi, öðrum frjósömum auðlindum og aðföngum, þekkingu, fjármálaþjónustu, mörkuðum og tækifærum til virðisauka og starfa utan býla. 

2.4  
Eigi síðar en árið 2030 verði sjálfbært fyrirkomulag matvælaframleiðslu tryggt og viðnámsþolnum starfsháttum í landbúnaði hrint í framkvæmd sem eykur framleiðni og framleiðslu, stuðlar þar með að viðhaldi vistkerfa, eflir getu til þess að aðlagast loftslagsbreytingum, veðurhamförum, þurrki, flóðum og öðrum hamförum og bætir gæði lands og jarðvegs smám saman. 

2.5  
Eigi síðar en árið 2020 verði við haldið erfðafræðilegri fjölbreytni fræja, ræktaðra plantna og búfjár og húsdýra og villtra tegunda þeim skyldar, meðal annars með tilkomu vel rekinna, fjölbreyttra, landsbundinna, svæðisbundinna og alþjóðlegra fræ- og plöntubanka og með auknum aðgangi að og sanngjarnri og jafnri skiptingu ávinnings af nýtingu erfðaauðlinda og tengdri, hefðbundinni þekkingu, eftir því sem samþykkt hefur verið á alþjóðavettvangi.

2.a          
Fjárfestingar verði auknar, meðal annars með aukinni alþjóðlegri samvinnu, í innviðum á svæðum utan þéttbýlis, rannsóknum og ráðgjafarþjónustu í landbúnaði, tækniþróun og genabönkum fyrir plöntur og búpening, í því skyni að bæta framleiðslugetu í landbúnaði í þróunarlöndum, einkum þeim sem skemmst eru á veg komin.

2.b 
Komið verði í veg fyrir hindranir og röskun á heimsmörkuðum með landbúnaðarvörur og þær lagfærðar, meðal annars með samhliða afnámi útflutningsstyrkja í landbúnaði í hvaða mynd sem er og allra útflutningsráðstafana sem hafa sömu áhrif, í samræmi við umboð Dóha-lotunnar um þróunarmál.

2.c  
Samþykktar verði ráðstafanir til þess að tryggja eðlilega starfsemi matvörumarkaða og afleiða þeirra og að greitt verði fyrir tímanlegum aðgangi að markaðsupplýsingum, meðal annars um matvælabirgðir, í því skyni að vinna gegn miklum sveiflum á matvælaverði.