17. Alþjóðleg samvinna

Markmið: Styrkja framkvæmd og blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun

Undirmarkmið:


Fjármál

17.1    
Tilföng innanlands verði aukin, meðal annars með alþjóðlegum stuðningi við þróunarlönd, til að bæta innlenda getu til öflunar skatttekna og annarra tekna. 

17.2    
Iðnríkin komi að fullu til framkvæmda skuldbindingum sínum um opinbera þróunaraðstoð, t.d. þeirri skuldbindingu margra iðnríkja að láta 0,7% af opinberri þróunaraðstoð/vergum þjóðartekjum renna til þróunarlanda og 0,15 til 0,20% af opinberri þróunaraðstoð/vergum þjóðartekjum til þeirra landa sem eru skemmst á veg komin í þróun. Þau ríki sem veita opinbera þróunaraðstoð eru hvött til þess að íhuga að setja sér það markmið að láta a.m.k. 0,20% af opinberri þróunaraðstoð/vergum þjóðartekjum renna til þeirra landa sem eru skemmst á veg komin í þróun.

17.3    
Kallað verði eftir viðbótarfjármagni frá hinum ýmsu aðilum til handa þróunarlöndum.

17.4    
Þróunarlönd fái aðstoð til að ná sjálfbærri skuldastöðu til lengri tíma litið með samræmdum stefnumálum sem miða að því að bæta fjármögnun, niðurfellingu og endurskipulagningu skulda eftir því sem við á. Erlendar skuldir mjög skuldsettra, fátækra ríkja verði skoðaðar með það fyrir augum að draga úr skuldavanda.

17.5    
Aðgerðaráætlanir til að efla fjárfestingar verði samþykktar fyrir þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og þeim hrundið í framkvæmd. 

Tækni

17.6    
Eflt verði samstarf milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða og þríhliða samstarf. Einnig verði alþjóðlegt samstarf um vísindi, tækni og nýsköpun eflt og aðgangur að þessum sviðum auðveldaður. Enn fremur verði  þekkingarmiðlun á jafnræðisgrundvelli efld, meðal annars með því að bæta samræmingu fyrirliggjandi aðgerða, einkum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og innan ramma alþjóðlegra kerfa sem er ætlað að greiða fyrir tækni.

17.7    
Stuðlað verði að þróun, yfirfærslu, miðlun og dreifingu umhverfisvænnar tækni til þróunarlandanna með hagstæðari skilmálum en nú gerist, m.a. með ívilnandi skilmálum og vildarkjörum, eftir því sem gagnkvæmt samkomulag næst um.

17.8    
Eigi síðar en árið 2017 verði tæknibanki og aðgerðir til uppbyggingar á getu á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar að fullu starfhæf fyrir þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og stuðningur til sjálfshjálpar efldur, einkum á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni. 

Uppbygging getu

17.9    
Efldur verði alþjóðlegur stuðningur við framkvæmd skilvirkrar og hnitmiðaðrar uppbyggingar á getu í þróunarlöndunum með það að markmiði að styðja við landsáætlanir um að hrinda öllum þróunarmarkmiðum um sjálfbærni í framkvæmd, meðal annars með samstarfi milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða og með þríhliða samstarfi.

Viðskipti

17.10  
Stuðlað verði að alþjóðlegu viðskiptakerfi, sem byggist á reglum, er opið, án mismununar og er réttlátt og marghliða, innan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og miðar meðal annars að því að ljúka viðræðum stofnunarinnar sem kenndar eru við Dóha.

17.11  
Útflutningur þróunarlanda verði aukinn verulega, einkum með það fyrir augum að tvöfalda hlut þeirra landa sem eru skemmst á veg komin í þróun í útflutningi á heimsvísu, eigi síðar en árið 2020.

17.12  
Komið verði til framkvæmda í tæka tíð tollfrjálsum og kvótalausum markaðsaðgangi á varanlegum grunni fyrir öll lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun, í samræmi við ákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, meðal                   annars með því að tryggja að upprunareglur, sem veita fríðindi og eiga við um innflutning frá þeim löndum sem               eru skemmst á veg komin í þróun, séu gagnsæjar og einfaldar og stuðli að því að greiða fyrir markaðsaðgangi. 

Kerfistengd málefni

Stefnumál og samhengi í stofnanalegu tilliti

17.13
Efldur verði efnahagslegur stöðugleiki um allan heim, meðal annars með því að samræma stefnur og samfellu í stefnumálum.

17.14  
Eflt verði samhengi stefnumála varðandi sjálfbæra þróun.

17.15  
Svigrúm og vald hvers lands til að koma á og framfylgja stefnumálum um útrýmingu fátæktar og sjálfbæra þróun verði virt. 

Samstarf margra hagsmunaaðila

17.16  
Eflt verði samstarf á heimsvísu um sjálfbæra þróun, stutt samstarfi margra hagsmunaaðila um að virkja og miðla kunnáttu, sérþekkingu, tækni og fjármagni, til að stuðla að því að markmiðum um sjálfbæra þróun verði náð í öllum löndum, einkum þróunarlöndum.

17.17  
Hvatt verði til skilvirkra samstarfsverkefna opinberra aðila innbyrðis, opinberra aðila og einkaaðila og á vettvangi borgaralegs samfélags og stutt við slík verkefni. Við framkvæmd þeirra verði byggt á reynslu af samstarfsverkefnum almennt og á fjármögnunaraðferðum þeirra. 

Gögn, eftirlit og ábyrgð

17.18  
Efldur verði stuðningur við þróunarlöndin, meðal annars við þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og þróunarlönd sem eru smáeyjaríki, eigi síðar en árið 2020, hvað varðar uppbyggingu getu til að auka verulega framboð á vönduðum, tímanlegum og áreiðanlegum gögnum, sundurliðuðum eftir tekjum, kyni, aldri, kynþætti, uppruna, innflytjendastöðu, fötlun, landfræðilegri staðsetningu og öðrum breytum sem eiga við í landsbundnu samhengi.

17.19  
Eigi síðar en árið 2030 verði tekið mið af fyrirliggjandi frumkvæði til að þróa mælikvarða fyrir framvindu sjálfbærrar þróunar, þ.e. mælikvarða til viðbótar mælikvörðum um verga landsframleiðslu, og stutt verði við uppbyggingu getu á sviði tölfræði í þróunarlöndunum.