15. Líf á landi

Markmið: Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbærri stjórnun skógarauðlindarinnar, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu og endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni

Undirmarkmið:

15.1    
Eigi síðar en árið 2020 verði tryggð verndun, endurheimt og sjálfbær nýting landvistkerfa og ferskvatnsvistkerfa og vistkerfisþjónusta þeirra, einkum skóga, votlendis, fjallendis og þurrkasvæða, í samræmi við skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum.

15.2    
Eigi síðar en árið 2020 hafi tekist að efla sjálfbæra stjórnun í öllum gerðum skóga, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurræktun skóga.

15.3    
Eigi síðar en árið 2030 verði eyðimerkurmyndun stöðvuð, hnignandi land og jarðvegur endurheimt, þ.m.t. land sem  er raskað af eyðimerkurmyndun, þurrkum og flóðum, og unnið að því að koma á jafnvægi milli eyðingar og endurreisnar lands.

15.4    
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggð verndun vistkerfa í fjalllendi, þ.m.t. líffræðilega fjölbreytni þeirra, til þess að efla getu þeirra til að gefa af sér ávinning sem er nauðsynlegur sjálfbærri þróun.

15.5    
Gripið verði til brýnna og þýðingarmikilla aðgerða til að draga úr hnignun náttúrulegra búsvæða, stöðva tap líffræðilegrar fjölbreytni og, eigi síðar en árið 2020, vernda og koma í veg fyrir útrýmingu tegunda í bráðri hættu.

15.6    
Stuðlað verði að sanngjarnri og jafnri skiptingu ávinnings af nýtingu erfðaauðlinda og að viðeigandi aðgangi að slíkum auðlindum samkvæmt alþjóðlegum samþykktum.

15.7    
Gripið verði til bráðra aðgerða til að binda enda á veiðiþjófnað og viðskipti með verndaðar tegundir plantna og dýra og takast á við bæði eftirspurn og framboð á ólöglegum  afurðum af villtum dýrum.

15.8    
Settar verði fram ráðstafanir, eigi síðar en árið 2020, til að koma í veg fyrir aðflutning ágengra framandi tegunda og draga verulega úr áhrifum þeirra á land- og vatnsvistkerfi og forgangstegundum verði stýrt eða þeim útrýmt.

15.9    
Gildi vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni verði samþætt, eigi síðar er árið 2020, landsbundinni og staðbundinni áætlanagerð, þróunarferlum, aðgerðum til að draga úr fátækt og reikningshaldi.  

15.a    
Fjármagn frá öllum aðilum verði virkjað og aukið verulega til að varðveita og nota líffræðilega fjölbreytni og  vistkerfi með sjálfbærum hætti.

15.b    
Fjármagn frá öllum aðilum og á öllum stigum verði virkjað til að fjármagna sjálfbæra skógarstjórnun og mynda nægilega hvata fyrir þróunarlöndin til að þróa slíka stjórnun, þ.m.t. vegna verndunar og endurræktunar skóga.

15.c    
Efldur verði stuðningur á heimsvísu við viðleitni til að berjast gegn veiðiþjófnaði og ólöglegum viðskiptum með  verndaðar tegundir, meðal annars verði efld geta nærsamfélaga til að leita sjálfbærra leiða til að afla lífsviðurværis.