14. Líf í vatni

Markmið: Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun

Heims14Undirmarkmið:

14.1    
Eigi síðar en árið 2025 verði komið í veg fyrir og verulega dregið úr hvers kyns mengun sjávar, einkum frá starfsemi á landi, þ.m.t. rusli í sjó og mengun af völdum næringarefna.

14.2    
Eigi síðar en árið 2020 verði gengið um vistkerfi sjávar og stranda og þau vernduð á sjálfbæran hátt til að koma í veg fyrir veruleg neikvæð áhrif, meðal annars með því að efla viðnámsþol þeirra, og gripið verði til aðgerða til að endurheimta og efla heilbrigði þeirra og framleiðslu.

14.3    
Áhrifum af súrnun sjávar verði haldið í lágmarki og unnið gegn henni, t.d. með því að efla vísindalegt samstarf á öllum sviðum.

14.4    
Eigi síðar en árið 2020 verði komið á skilvirku eftirliti með tekju og tekið fyrir ofveiði og ólöglegar, ótilkynntar og stjórnlausar fiskveiðar og eyðileggjandi veiðiaðferðir og hrundið í framkvæmd áætlunum um stjórn fiskveiða, sem byggjast á vísindalegum grunni, í því skyni að endurheimta fiskistofna á stysta mögulega tíma, a.m.k. að því marki að stofnar geti gefið af sér hámarksafrakstur miðað við líffræðilega eiginleika sína.

14.5    
Eigi síðar en árið 2020 verði a.m.k. 10% af strand- og hafsvæðum vernduð, í samræmi við landslög og alþjóðalög, og byggt á bestu fyrirliggjandi vísindaupplýsingum.

14.6    
Eigi síðar en árið 2020 verði tiltekin form niðurgreiðslna til sjávarútvegs, sem stuðla að of mikilli afkastagetu og ofveiði, bönnuð og niðurgreiðslur, sem stuðla að ólöglegum, ótilkynntum og stjórnlausum fiskveiðum, afnumdar og reynt að koma í veg fyrir að teknar verði upp nýjar tegundir slíkra niðurgreiðslna, þar sem viðurkennt er að viðeigandi og skilvirk, sérstök og mismunandi meðferð fyrir þróunarríkin og þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun ætti að vera órjúfanlegur þáttur í samningaviðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um niðurgreiðslur til sjávarútvegs.

14.7    
Eigi síðar en árið 2030 hafi efnahagslegur ávinningur þróunarlanda sem eru smáeyjaríki og þeirra landa sem eru skemmst á veg komin í þróun aukist vegna sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda, meðal annars með því að ástunda sjálfbæra stjórnun fiskveiða, lagareldi og ferðaþjónustu.

14.a    
Vísindaleg þekking verði aukin, geta á sviði rannsókna verði þróuð og tækniþekking í haffræðum verði yfirfærð, að teknu tilliti til viðmiðana og leiðbeininga Alþjóðahaffræðinefndarinnar um yfirfærslu þekkingar í sjávarútvegi                 (Intergovernmental Oceanographic Commission Criteria and Guidelines on the Transfer of Marine Technology), í því skyni að efla heilbrigði sjávar og auka líffræðilega fjölbreytni í höfunum til framþróunar í þróunarlöndunum, einkum þeim sem eru smáeyjaríki og þeim sem eru skemmst á veg komin í þróun.

14.b    
Veita þeim sem veiða í smáum stíl aðgang að sjávarauðlindum og mörkuðum.

14.c    
Varðveisla og sjálfbær nýting hafsins og auðlinda þess verði efld með því að hrinda í framkvæmd alþjóðalögum, eins og fram kemur í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, þar sem kveðið er á um lagaramma um varðveislu og sjálfbæra nýtingu hafsins og auðlinda þess, eins og minnt er á í 158. gr. í skjalinu Framtíðin sem við viljum