11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Markmið: Gera borgir og íbúðasvæði öllum mönnum auðnotuð, örugg, viðnámsþolin og sjálfbær

Undirmarkmið:

11.1    
Eigi síðar en árið 2030 verði öllum tryggður aðgangur að fullnægjandi, öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði og grunnþjónusta og fátækrahverfi endurbætt.

11.2    
Eigi síðar en árið 2030 verði öllum veittur aðgangur að öruggum, aðgengilegum og sjálfbærum flutningakerfum á viðráðanlegu verði og öryggi á vegum bætt, einkum með auknum almenningssamgöngum, þar sem sérstök áhersla verði lögð á þarfir þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, kvenna, barna, fatlaðs fólks og eldra fólks.

11.3    
Eigi síðar en árið 2030 verði efld sjálfbær þéttbýlismyndun fyrir alla og geta til skipulagningar og stýringar, sem byggist á þátttöku, á samþættum og sjálfbærum íbúðasvæðum í öllum löndum.

11.4    
Viðleitni til þess að vernda og tryggja menningar- og náttúruarfleifð heimsins verði efld. 

11.5    
Eigi síðar en árið 2030 verði dregið verulega úr fjölda dauðsfalla vegna hamfara og fjölda þess fólks sem verður fyrir áhrifum af þeirra völdum og dregið verði úr beinu efnahagslegu tjóni, sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu á heimsvísu, af völdum hamfara, meðal annars hamfara sem tengjast vatni, þar sem áhersla verði lögð á að vernda fátæka og fólk í viðkvæmri stöðu.

11.6    
Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum borga á hvern einstakling, meðal annars með því að beina sérstakri athygli að loftgæðum og meðhöndlun sveitarfélaga á úrgangi og annars konar meðhöndlun úrgangs.

11.7    
Eigi síðar en árið 2030 verði almennur aðgangur veittur að öruggum og aðgengilegum grænum svæðum fyrir almenning, einkum konur og börn, eldra fólk og fatlað fólk.

11.a    
Stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða. 

11.b    
Eigi síðar en árið 2020 verði fjöldi borga og íbúðasvæða aukinn verulega sem samþykkja og hrinda í framkvæmd samþættum stefnumálum og áætlunum, sem miða að aðkomu allra, auðlindanýtni, því að draga úr loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim og að viðnámsþoli gegn hamförum, og þróuð verði og framkvæmd heildræn hamfaraáhættustýring á öllum sviðum í samræmi við Sendai-rammaáætlunina 2015-2030.

11.c    
Löndum, sem eru skemmst á veg komin í þróun, verði veittur stuðningur, meðal annars með fjárhags- og tækniaðstoð, til þess að reisa varanlegar og viðnámsþolnar byggingar úr efnum á staðnum.