10. Aukinn jöfnuður

Markmið: Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa

Undirmarkmið:

10.1    
Eigi síðar en árið 2030 verði varanlegri tekjuaukningu náð fram í áföngum fyrir 40% þess mannfjölda sem tekjulægstur er og henni viðhaldið og gangi hraðar fyrir sig en almenn meðaltalstekjuaukning á landsvísu.

10.2    
Eigi síðar en árið 2030 verði stuðlað að því og öllum gert kleift að taka þátt í félags-, efnahags- og stjórnmálalífi, án tillits til aldurs, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, uppruna, trúarbragða eða efnahagslegrar eða annarrar stöðu.

10.3    
Jöfn tækifæri verði tryggð sem og dregið úr ójöfnuði viðvíkjandi árangri, meðal annars með því að afnema lög, stefnumál og starfsvenjur sem hafa mismunun í för með sér, og stuðlað verði jafnframt að viðeigandi lagasetningu, stefnumálum og aðgerðum í þessu tilliti.

10.4    
Tekin verði upp stefnumál, einkum í opinberum fjármálum, launatryggingum og á sviði félagslegrar verndar, og auknu jafnrétti náð fram í áföngum.

10.5    
Reglusetning og eftirlit með alþjóðlegum fjármálamörkuðum og -stofnunum verði bætt og beiting slíkra reglna efld.

10.6    
Tryggt verði aukið fyrirsvar og að rödd þróunarlanda heyrist betur þegar ákvarðanir eru teknar innan alþjóðlegra stofnana á sviði efnahags- og fjármála til að auka skilvirkni, trúverðugleika, áreiðanleika og lögmæti þeirra.

10.7    
Greitt verði fyrir skipulegum, öruggum, reglulegum og ábyrgum búferlaflutningum og för fólks, meðal annars með því að hrinda stefnumálum á sviði búferlaflutninga í framkvæmd á skipulegan og hagkvæman hátt.

10.a    
Meginreglan um sérstaka og breytilega meðferð í þágu þróunarlanda, einkum þeirra sem eru skemmst á veg komin, verði framkvæmd í samræmi við samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

10.b    
Ýtt verði undir opinbera þróunaraðstoð og fjárstreymi, meðal annars beina, erlenda fjárfestingu, til ríkja þar sem þörfin er mest, einkum landa sem eru skemmst á veg komin í þróun, Afríkulanda, þróunarlanda sem eru smáeyjaríki og landluktra þróunarlanda, í samræmi við landsáætlanir þeirra og fyrirætlanir.

10.c    
Eigi síðar en árið 2030 verði kostnaður vegna millifærslu peninga farandlaunþega lækkaður niður í minna en 3% og leiðum til peningasendinga lokað sem hafa í för með sér kostnað sem er yfir 5%.