1. Engin fátækt

Markmið: Útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar

Undirmarkmið:

1.1           
Eigi síðar en árið 2030 verði sárri fátækt útrýmt alls staðar, metið þannig að enginn lifi á lægri fjárhæð en nemur nú 1,25 Bandaríkjadölum á dag.

1.2      
Eigi síðar en árið 2030 lækki hlutfall karla, kvenna og barna á öllum aldri, sem búa við fátækt í öllum sínum birtingarmyndum samkvæmt skilgreiningu í hverju landi, um a.m.k. helming.

1.3      
Ráðstafanir verði gerðar til samræmis við aðstæður í hverju landi til að innleiða félagsleg tryggingakerfi og vernd öllum til handa, þar með talin lágmarksframfærsluviðmið, og eigi síðar en árið 2030 verði stuðningur við og vernd fátæks fólks og fólks í viðkvæmri stöðu stóraukinn.

1.4      
Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir karlar og konur, einkum fátækt fólk og fólk í viðkvæmri stöðu, eigi jafnan rétt til efnahagslegra bjargráða og aðgengis að grunnþjónustu, eignarhaldi á og yfirráðum yfir landi og eignum í annarri mynd, erfðum, náttúruauðlindum, viðeigandi nýrri tækni og fjármálaþjónustu, meðal annars smálánafjármögnun.

1.5      
Eigi síðar en árið 2030 verði viðnámsþol fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu eflt, sérstaklega varðandi neikvæð áhrif af völdum loftslagstengdra hamfara og annarra efnahags-, félags- og umhverfislegra áfalla og hamfara.

1.a      
Tryggðar verði umtalsverðar bjargir, meðal annars með efldri þróunarsamvinnu, til að þróunarlönd, einkum þau sem skemmst eru á veg komin, fái nægar og fyrirsjáanlegar bjargir, í því skyni að hrinda í framkvæmd áætlunum og stefnumálum sem miða að því að útrýma fátækt í öllum sínum birtingarmyndum.

1.b      
Að mótuð verði traust umgjörð um stefnumál á landsvísu, svæðum og alþjóðlegum vettvangi, byggð á þróunaráætlunum sem styðja sérstaklega við fátæka og taka mið af kynjamismunun, í því skyni að styðja við stigvaxandi fjárfestingu í aðgerðum sem miða að því að útrýma fátækt.