Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna

(UN Women)

UN Women tók formlega til starfa 1. janúar 2011, en stofnunin varð til við samruna fjögurra fjögurra stofnana sem unnu að kynjajafnréttismálum innan SÞ, þar á meðal UNIFEM. Stofnunin er í fararbroddi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á heimsvísu og er eina stofnun SÞ sem vinnur eingöngu að jafnrétti kynjanna, en stofnunin hefur þríþætt hlutverk.Hún starfar á vettvangi, sinnir samræmingarhlutverki meðal stofnana SÞ og er leiðandi í stefnumótun SÞ á alþjóðavettvangi um málaflokkinn. Ísland leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna á heimsvísu og ráðuneytið telur í því samhengi mikilvægt að styðja við þessa áherslustofnun. Ísland var fjórða stærsta gjafaríki stofnunarinnar árið 2015 þegar kjarnaframlögin voru skoðuð miðað við höfðatölu, en framlög Íslands til UN Women jukust um helming frá stofnun þess árið 2011 til ársins 2016. 

Efst á baugi

Íslensk stjórnvöld veita kjarnaframlög til UN Women og var Ísland fjórða stærsta gjafaríki stofnunarinnar árið 2015 þegar kjarnaframlögin voru skoðuð miðað við höfðatölu. Þá er jafnframt stutt við starfsemi stofnunarinnar í Afganistan og Palestínu, en framlagið fer nú beint í almenna framkvæmd ársáætlana í stað þess að vera varið til ákveðinna afmarkaðra verkefna og er stofnuninni þannig veitt svigrúm til að framkvæma áætlanir og veita fé þar sem þörf er á. Sl. ár hefur Ísland einnig stutt við verkefni UN Women í Zataari, en verkefnið snýr að valdeflingu kvenna í búðunum sem eru staðsettar í Jórdaníu en eiga landamæri að Sýrlandi og taka á móti flóttamönnum þaðan. 

Á árinu 2017 hófst viðamikið samstarfsverkefni Íslands og UN Women í Mósambík sem beinist að því að aðstoða mósambísk stjórnvöld við framkvæmd fyrstu áætlunar innar um framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Í Mósambík þar sem borgarastyrjöld ríkti í rúm sextán ár og enn eru róstur öðru hverju skiptir ályktunin og framkvæmd hennar gríðarlega miklu máli, en megimarkmið þess er að tryggja að ferlar og áætlanir sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í mósambísku samfélagi leggi sitt að mörkum til jafnréttis og valdeflingar kvenna og stúlkna, en oft verða þær útundan í friðarferlum og áætlunum. 

Fjórði samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og landsnefndar UN Women á Íslandi um framlög gildir tímabilið 2016-2018 en auk kynningar- og fræðslumála veitir landsnefndin almenna ráðgjöf og umsögn vegna málefna á alþjóðavettvangi og fræðir útsenda sérfræðinga á vegum Íslensku friðargæslunnar um jafnréttismál og framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325.

Úr skýrslu utanríkisráðherra 2017:

Íslensk stjórnvöld hafa veitt kjarnaframlög til UN Women og var Ísland fjórða stærsta gjafaríki stofnunarinnar árið 2015 þegar kjarnaframlögin voru skoðuð miðað við höfðatölu. Áfram voru veitt framlög í styrktarsjóð SÞ, sem styrkir verkefni um allan heim, sem miða að því að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og tryggja þolendum aðstoð. Þá voru veitt framlög til verkefna stofnunarinnar í Afganistan og Palestínu líkt og undanfarin ár. Framlag Íslands fer nú beint í almenna framkvæmd ársáætlana í stað þess að vera varið til ákveðinna afmarkaðra verkefna. Þannig fæst svigrúm til að framkvæma áætlanir og veita fé þar sem þörf er á. Er þetta svar við beiðni UN Women um að gjafaríki dragi úr eyrnamerkingum framlaga. 

Samkvæmt nýrri formúlu um skiptingu sæta Vesturlandahópsins í stjórn UN Women er Íslandi tryggt eitt sæti á næstu sex árum en sætunum er úthlutað þriðja hvert ár. Fastanefnd Íslands í New York tekur þátt í starfi óformlegs vinahóps líkt þenkjandi ríkja á vettvangi SÞ sem styðja starf UN Women. 

Fjórði samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og landsnefndar UN Women á Íslandi um framlög gildir tímabilið 2016-2018 en auk kynningar- og fræðslumála veitir landsnefndin almenna ráðgjöf og umsögn vegna málefna á alþjóðavettvangi og fræðir útsenda sérfræðinga á vegum Íslensku friðargæslunnar um jafnréttismál og framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325.