Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tók til starfa á árinu 1998, en markmið hans er að efla sérfræðiþekkingu í sjávarútvegi og fiskveiðum í þróunarríkjum. Hafrannsóknastofnun ber ábyrgð á rekstri skólans, en starfsemin byggist á samstarfi við Matís, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, auk fjölda fyrirtækja og annarra stofnana. Nám við skólann felst í sex mánaða þjálfun fyrir sérfræðinga frá þróunarlöndunum en þeir sérhæfa sig á því sviði sem starf þeirra snýr að í þeirra heimalandi. Sjávarútvegsskólinn leggur sérstaka áherslu á lönd í Afríku sunnan Sahara og smáeyþróunarríki, en einnig koma sérfræðingar frá ýmsum löndum Asíu. Frá upphafi hafa samtals 347 sérfræðingar frá 53 löndum lokið sex mánaða námsdvöl á Íslandi. Til viðbótar því námi sem fer fram á Íslandi skipuleggur Sjávarútvegsskólinn stutt námskeið í þróunarlöndum í samvinnu við heimamenn og alþjóðlegar stofnanir, en alls hafa tæplega 1100 sérfræðingar sótt slík námskeið. Auk þess styður skólinn sérfræðinga til meistara- og doktorsnáms á Íslandi.

Vefur Sjávarútvegsskólans (á ensku)