Háskóli Sameinuðu þjóðanna

(UNU)

Frá árinu 1979 hafa skólar undir regnhlíf Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) verið starfræktir á Íslandi. Af þeim er Jarðhitaskólinn elstur en árið 1998 hóf Sjávarútvegsskólinn starfsemi sína og árin 2007 og 2013 bættust Landgræðslu- og Jafnréttisskólinn í hópinn. Skólarnir starfa að því að efla getu einstaklinga og stofnana í þróunarlöndum á sínum sérsviðum. Ár hvert koma hópar sérfræðingar á frá þróunarríkjum til sex mánaða sérhæfðs náms á Íslandi, auk þess sem Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn halda styttri námskeið erlendis.

Markmið Jarðhitaskólans er að tryggja aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði. Vinnur hann þar með gegn loftlagsbreytingum og neikvæðum áhrifum þeirra. Sjávarútvegsskólinn vinnur að því að efla getu stofnana og einstaklinga í þróunarríkjum til að nýta á sjálfbæran hátt lifandi auðlindir í vatni. Hlutverk Landgræðsluskólans er að vinna að vernd, endurheimt og sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbærri stjórnun skógarauðlinda, baráttu gegn eyðimerkurmyndun, stöðvun jarðvegseyðingar, endurheimt landgæða og mótspyrnu við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Tilgangur Jafnréttisskólans er að vinna að kynjajafnrétti og félagslegu réttlæti í þróunarríkjum, ríkjum þar sem ófriður geisar og í ríkjum sem hafa áður búið við vopnuð átök. Þá er markmið skólans einnig að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum þar sem konur og karlar hafa jafnan aðgang að réttarkerfi og skilvirkum og ábyrgum stofnunum.

Starfsemi skólanna styður með beinum hætti við íslenska þróunarsamvinnu, hvort sem er við uppbyggingu sjávarútvegs eða nýtingu jarðvarma í samstarfsríkjum, í þeim tilgangi að efla viðnámsþrótt samfélaga og fyrirbyggja náttúruhamfarir og hamfarir af mannavöldum og neikvæðar afleiðingar þeirra. Skólar HSÞ á Íslandi starfa einnig sem hugveitur og hafa veitt mikilvæga ráðgjöf við málsvarastarf íslenskrar utanríkisstefnu, t.a.m. varðandi málefni hafsins og jafnréttismál. Alls hefur 1181 sérfræðingur lokið þjálfun frá skólum HSÞ á Íslandi og 2796 hafa sótt námskeið skólanna erlendis.

Á árinu 2017 fer fram úttekt á starfi skólanna. Ásamt því að leggja mat á árangur af starfsemi skólanna mun úttektin nýtast við mótun framtíðarfyrirkomulags þeirra. Gert er ráð fyrir að sett verði á laggirnar ný stofnun HSÞ á Íslandi í byrjun árs 2018 sem verði alþjóðastofnun undir formerkjum SÞ og að rekstur skólanna falli undir stofnunina.