Alþjóðabankinn

(The World Bank Group)

Hlutverk Alþjóðabankans er að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarlanda. Bankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim aðstoð í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Ísland á víðtækt samráð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um stefnumótun innan Alþjóðabankans, en þessi lönd mynda eitt kjördæmi bankans. Alþjóðabankinn samanstendur af fimm stofnunum:

  • Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development - IBRD) sem veitir lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum til millitekjulanda. 
  • Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association - IDA) sem aðstoðar fátækustu þróunarríkin með styrkjum, vaxtalausum lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna.
  • Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation - IFC) sem styður við framþróun einkageirans í þróunarlöndum með lánveitingum til fjárfesta og með hlutafjárkaupum.
  • Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) sem veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga einkaaðila í þróunarlöndum gegn áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, t.d. vegna ófriðar, eignaupptöku eða gjaldeyristakmarkana.
  • Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes - ICSID) sem hvetur til erlendra fjárfestinga með því að vera óháð alþjóðastofnun sem veitir aðstoð til sáttagerðar og gerðardóma í lausnum fjárfestingardeilna.

Efst á baugi

Ísland hefur lengi tekið virkan þátt í fjölþjóðastarfi Alþjóðabankans í gegnum kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, en Ísland mun taka við formennsku í kjördæmisstarfinu árið 2019 og gegna því í tvö ár. Í formennskunni felst annars vegar að Ísland mun eiga aðalfulltrúa í stjórn Alþjóðabankans sem gegnir starfinu fyrir hönd kjördæmisins, og hins vegar mun Ísland leiða samræmingarstarf kjördæmislandanna í höfuðborgunum. Þá mun Ísland eiga sæti í þróunarsamvinnunefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hluta árs 2019.

Stór hluti framlaga Íslands fer til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (International Development Association, IDA) sem veitir fátækustu löndum heims styrki og lán á hagstæðum kjörum auk ráðgjafar. Samningaviðræðum um 18. endurfjármögnun IDA lauk á árinu 2016 með betri árangri en nokkru sinni fyrr og hefur heildarfjármagnið, sem mun renna til aðstoðar fátækustu ríkjunum í gegnum stofnunina, aldrei verið jafnhátt eða 75 milljarðar Bandaríkjadala. 

Á síðustu árum hefur tvíhliða samstarf Íslands við bankann jafnframt aukist talsvert þar sem lögð hefur verið áhersla á samstarf á sviði jarðhita, fiskimála, jafnréttis- og mannréttindamála.

Á sviði jarðhita er í gildi samningur til fjögurra ára (2017-2020) við orkusjóð bankans (e. Energy Sector Management Assistance Programme, ESMAP), í samræmi við nýja stefnu sjóðsins en hún hefur sterka skírskotun til heimsmarkmiðanna. Ísland hefur veitt ESMAP stuðning frá árinu 2006, en sjóðurinn er einn helsti samstarfsaðili Íslands á sviði jarðhitamála en auk framlaga til ESMAP fjármagnar Ísland stöðu jarðhitasérfræðings í gegnum verkefnasjóð Íslands hjá bankanum. Frá því að Ísland hóf stuðning við ESMAP hafa fjárfestingar Alþjóðabankans í jarðhita aukist talsvert og hafa fjárfestingar alþjóðlegra þróunarbanka í rannsóknaborunum aukist samhliða, eða úr 6% árið 2011 í 18% á árinu 2016. Ísland hefur jafnframt stutt við starf bankans á sviði fiskimála, en auk stuðnings við fiskisjóð bankans (PROFISH) mun Ísland fjármagna stöðu sérfræðings á sviði fiskimála með aðsetur í Accra í Ghana, en hann mun starfa að fiskiverkefnum bankans í nokkrum löndum Vestur-Afríku. Áhersla hefur einnig verið lögð á að efla starf bankans á sviði jafnréttismála og veitir Ísland framlög í sérstakan jafnréttissjóð (e. Umbrella Facility for Gender Equality, UFGE) sem hefur að markmiði að auka þekkingu innan bankans á jafnréttismálum og stuðla þannig að samþættingu kynjasjónarmiða á öllum sviðum bankans. Að lokum veitir Ísland framlög til norræns mannréttindasjóðs en honum er ætlað að auka veg mannréttinda innan bankans og í verkefnum hans. 

Úr skýrslu utanríkisráðherra 2017:

Ísland hefur lengi tekið virkan þátt í fjölþjóðastarfi Alþjóðabankans í gegnum kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Á síðustu árum hefur tvíhliða samstarf Íslands við bankann jafnframt aukist talsvert þar sem lögð hefur verið áhersla á samstarf á sviði jarðhita, fiskimála, jafnréttis- og mannréttindamála. Íslensk stjórnvöld standa fyrir umfangsmiklu samstarfi um jarðhitarannsóknir í Austur-Afríku, m. a. í samstarfi við Alþjóðabankann. Á sl. ári endurnýjaði Ísland samning um stuðning við orkusjóð bankans (e. Energy Sector Management Assistance Programme, ESMAP) til fjögurra ára, í samræmi við nýja stefnu sjóðsins en hún hefur sterka skírskotun til heimsmarkmiðanna. ESMAP er einn helsti samstarfsaðili Íslands á sviði jarðhitamála en auk framlaga til ESMAP fjármagnar Ísland stöðu jarðhitasérfræðings í gegnum verkefnasjóð Íslands hjá bankanum. Frá því að Ísland hóf stuðning við ESMAP hafa fjárfestingar Alþjóðabankans í jarðhita aukist talsvert og hafa fjárfestingar alþjóðlegra þróunarbanka í rannsóknaborunum aukist samhliða, eða úr 6% árið 2011 í 18% á árinu 2016. Þá mun Ísland fjármagna stöðu sérfræðings á sviði fiskimála með aðsetur í Accra í Ghana, en hann mun starfa að fiskiverkefnum bankans í nokkrum löndum Vestur-Afríku. Staðan var auglýst í lok mars sl. og er bankinn að vinna úr umsóknunum sem bárust.

Ísland og ESMAP hafa til að mynda sett á fót sérstakt samstarfsverkefni sem lýtur að jafnréttismálum í tengslum við jarðhita. Ísland veitir framlög í sérstakan jafnréttissjóð (e. Umbrella Facility for Gender Equality, UFGE) innan bankans. Sjóðurinn hefur að markmiði að auka þekkingu innan bankans á jafnréttismálum og stuðla þannig að samþættingu kynjasjónarmiða á öllum sviðum bankans. Ísland veitir einnig framlög til norræns mannréttindasjóðs en honum er ætlað að auka veg mannréttinda innan bankans og í verkefnum hans. Stór hluti framlaga Íslands fer til Alþjóðaframfarastofnunarinnar (International Development Association, IDA) sem veitir fátækustu löndum heims styrki og lán á hagstæðum kjörum auk ráðgjafar. Samningaviðræðum á árinu 2016 um 18. endurfjármögnun IDA lauk með betri árangri en nokkru sinni fyrr og hefur heildarfjármagnið, sem mun renna til aðstoðar fátækustu ríkjunum í gegnum stofnunina, aldrei verið jafnhátt eða 75 milljarðar Bandaríkjadala.

Verkefni innan Alþjóðabankans sem Ísland hefur stutt sérstaklega: