Fjölþjóðastarf

Samstarf við alþjóðastofnanir er lykilþáttur í þróunarstarfi íslenskra stjórnvalda og veitir Ísland ýmist stuðning með fjárframlögum eða málsvarastarfi. 

Fjárframlög eru einkum veitt í formi kjarnaframlaga sem eru óeyrnamerkt framlög sem renna beint til starfseminnar eða í formi framlaga sem eru eyrnamerkt ákveðnum verkefnum, löndum eða þematískum áherslusviðum. Jafnframt styðja íslensk stjórnvöld við starf stofnana með störfum íslenskra sérfræðinga á vettvangi.

Samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016 er lögð áhersla á fjórar lykilstofnanir: Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sem hefur það meginhlutverk að bæta hag barna, ungs fólks og kvenna í þróunarlöndum auk þess sem stofnunin sinnir mikilvægu hlutverki í mannúðaraðstoð; Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) sem er eina stofnun SÞ sem vinnur eingöngu að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna, en stofnunin starfar á vettvangi, sinnir samræmingarhlutverki meðal stofnana SÞ og er leiðandi í stefnumótun á alþjóðavettvangi; Alþjóðabankann (World Bank) sem er einn stærsti fjármögnunaraðili fátækustu þróunarríkjanna og Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU), en fjórir skólar Háskóla SÞ eru starfandi á Íslandi: Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn.