Borgarasamtök

Borgarasamtök gegna veigamiklu hlutverki í þróunarsamvinnu og neyðar- og mannúðaraðstoð og hefur samstarf utanríkisráðuneytisins við borgarasamtök farið vaxandi. Reglulegt samráð fer fram milli utanríkisráðuneytisins og Samstarfshóps íslenskra mannúðarsamtaka í alþjóðlegu hjálparstarfi og þróunarsamvinnu, auk þess sem fimm fulltrúar borgarasamtaka sitja í samstarfsráði um alþjóðlega þróunarsamvinnu.  

Úr skýrslu utanríkisráðherra 2017:

Utanríkisráðuneytið veitti styrki á árinu 2016 til sjö þróunarsamvinnuverkefna íslenskra borgarasamtaka að heildarupphæð 86.4 m.kr., auk kynningarverkefnis Hjálparstarfs kirkjunnar að upphæð 500.000 kr. Fjögur langtímaverkefni fengu úthlutað opinberu fé, tvö verkefni Rauða krossins á Íslandi og tvö verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Styttri þróunarsamvinnuverkefni voru á vegum Alnæmisbarna, Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og Sambands íslenskra kristniboðsfélaga. 

Framlög til mannúðar- og þróunarverkefna 2016:Þróunarsamvinnuverkefnin fóru öll nema eitt fram í Afríku sunnan Sahara, tvö í Úganda, eitt í Malaví, Eþíópíu, Kenía og eitt verkefni náði til fleiri ríkja á svæðinu, en eitt verkefnanna fór fram í Hvíta-Rússlandi. Kynningarverkefnið var framkvæmt á Íslandi. Flest verkefnanna lutu að eflingu félagslegra innviða en menntamál voru einnig fyrirferðarmikil, auk þess sem stutt var við vatns- og hreinlætismál. 

Utanríkisráðuneytið veitti styrki til tólf verkefna Rauða krossins á Íslandi, Hjálparstarfs kirkjunnar, SOS Barnaþorpa og Barnaheilla á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar árið 2016 að heildarupphæð 150 m.kr. Af þessari upphæð komu 50 m.kr. af sérstöku framlagi ríkisstjórnarinnar vegna flóttamanna. Fjögur verkefnanna voru í Sýrlandi, tvö í Úganda og Eþíópíu, eitt í Líbanon, á Miðjarðarhafi, á Haítí og í Malaví. Sex verkefnanna voru til aðstoðar við flóttafólk en einnig var veitt neyðaraðstoð til að draga úr þjáningum og minnka skaðann sem fólk á Haítí hafði orðið fyrir í kjölfar fellibylsins Matthíasar og vegna þurrka í Eþíópíu og einnig vegna átakanna í Sýrlandi.